Stutt kynning

Félag eldri borgara á Akureyri var stofnað 3. október 1982 í Sjallanum og voru stofnfélagar 343, en auk þess gerðust 10 einstaklingar styrktarfélagar.  Ágrip af sögu félagsins til ársins 2013 er að finna undir liðnum UM FÉLAGIÐ hér á heimasíðunni og þykir ekki ástæða til að endurtaka þar sem þar kemur fram. 
 
Félagið er með heimasíðuna www.ebak.is, en heiti félagsins er gjarnan stytt í EBAK. Einnig er virkur fésbókarhópur á vegum félagsins, sem nefndist EBAK Félag eldri borgara á Akureyri.
 
Hlutverk félagsins
Hlutverk, samkvæmt samþykktum félagsins, er að vinna að félags- og hagsmunamálum eldri borgara:
a)  með skemmtanahaldi, ferðalögum og fræðslu af ýmsum toga.
b)  með margþættri heilsueflingu.
c)  með kynningu á réttindum og skyldum eldri borgara í samfélaginu.
d)  með úrbótum í húsnæðismálum eldri borgara, atvinnumálum og efnahagsmálum.
e)  með aðild að öldungaráði Akureyrarbæjar og hafa á annan hátt samskipti við þá aðila sem annast málefni er varða hagsmuni
     eldri borgara.  
f)  með því að vinna að öðrum þeim verkefnum sem stjórnin telur ástæðu til að félagið annist.
 
Félagsstarf eldri borgara á Akureyri
Margþætt og þróttmikið tómstunda- og félagsstarf fyrir eldri borgara, 60+, fer fram bæði á vegum Akureyrarbæjar og Félags eldri borgara á Akureyri. Starfsemi bæjarins heyrir undir fræðslu- og lýðheilsusvið. Bærinn rekur félagsmiðstöðvar fyrir eldri borgara í Birtu (Bugðusíðu 1) og í Sölku (Víðilundi 22).

Eins og fram kemur í Ágrip af sögu félagsins 1982-2013 var gerður samningur við Akureyrarbæ 2005 um að EBAK fengi aðstöðu í félagsmiðstöðinni að Bugðusíðu 1. Nýr samningur á milli Akureyrarbæjar og Félags eldri borgara var undirritaður í apríl 2023. Byggir hann að miklu leyti á eldri samningum. Samningurinn leggur grunn að metnaðarfullu félags- og tómstundastarfi EBAK og einnig kemur þar fram að Akureyrarbær styrkir félagið um 2 milljónir kr á ári út samningstímabilið. Megin starfsemin í miðstöðvunum er að vetrinum en minni yfir sumarið, enda er opnunartíminn þá styttri en yfir veturinn. Stundaskrár félagsmiðstöðvanna og yfirlit yfir starfsemina má finna í bæklingi, sem Akureyrarbær gefur út í september ár hvert í samstarfi við EBAK. Bæklinginn má einnig finna á www.ebak.is.
 
Starfsemi EBAK
Frá því í apríl 2023 hefur formaður félagsins einnig verið starfsmaður í 40% starfi með aðstöðu á skrifstofu félagsins. Félagið á mikið og gott samstarf við stjórnendur og starfsfólk félagsmiðstöðvanna. Starfsemi EBAK fer einkum fram í Félagsmiðstöðinni Birtu, enda er skrifstofa félagsins staðsett þar. Starfsemin er mjög öflug eins og sést vel á því að sjálfboðastarf í þágu félagsins er unnið af um 70 félagsmönnum sem kosnir eru á aðalfundi eða skipaðir af stjórn til tímabundinna verkefna. Aðrir félagar koma til aðstoðar og undirbúnings við ýmis tækifæri þegar þess er þörf. Ekki má gleyma öflugum sjálfboðaliðum sem hafa aðstoðað þegar þörf er á. 
Félagar geta þeir orðið sem búsettir eru á Akureyri og nágrenni og hafa náð 60 ára aldri. 
 
Skráning í félagið er á www.ebak.is eða á skrifstofu félagsins, en hún er opin á þriðjudögum, miðvikudögum og fimmtudögum frá kl. 13 til 15.
Árgjald 2024 er kr. 3.500. Félagar voru um 2500 þann 31. desember 2023 og fer stöðugt fjölgandi. Rétt er að taka hér fram að mörg fyrirtæki um allt land veita félögum afslátt af vörum og þjónustu gegn framvísun félagsskírteinis. Félagið er aðili að Landssambandi eldri borgara, sem var stofnað á Akureyri 19. júní 1989 af níu félögum víðs vegar af landinu. 

Stjórn EBAK
Stjórn félagsins skipa 7 einstaklingar í aðalstjórn og þrír í varastjórn. Formaður, varaformaður, ritari og gjaldkeri mynda framkvæmdaráð.
 
Nefndir og hópar
Að jafnaði eru fimm til sjö einstaklingar í hverri nefnd, en fjöldinn fer eftir eðli starfsemi nefndanna. Hægt er að kalla aðra félaga til aðstoðar við störf nefndanna ef þurfa þykir.
 
Gerðar hafa verið starfslýsingar fyrir hverja nefnd fyrir sig, þar er hlutverki þeirra lýst í stuttu máli og einnig ábyrgð þeirra gagnvart félaginu og félögunum. Allar nefndir skulu halda til haga skriflegum gögnum sem verða til í starfinu og skulu þau geymd á skrifstofu félagsins. Einnig hafa þær sitt heimasvæði í tölvu félagsins og setja þar inn gögn til geymslu á rafrænu formi. Sami einstaklingur má aðeins sitja samfellt í fjögur ár í aðalstjórn eða í nefnd og aðeins sitja í einni fastanefnd á sama tíma. Gæta þarf þess að ekki sé skipt um alla nefndamenn á sama aðalfundi.  Þegar kosið er í stjórn, nefndir, öldungaráð, fulltrúa á landsfund LEB og fleira skal leitast við að hafa kynjahlutföll sem jöfnust. 
 

Dansklúbbur sér um dansæfingar fyrsta og þriðja miðvikudag hvers mánaðar kl. 16:00-17:30. Dansaðir eru gömlu dansarnir og samkvæmisdansar. 

 

Ferðanefnd skipuleggur ferðir innanlands sem utan, kynnir þær og annast fararstjórn. Farin er að minnsta kosti ein utanlandsferð á ári auk styttri og lengri innanlandsferða. Leikhúsferð er yfirleitt farin á hverjum vetri og einnig ferð á jólahlaðborð í samvinnu við skemmtinefnd.

 
Fræðslunefnd annast ýmis konar fyrirlestra, bókakynningar og námskeið. Dagskrá á vegum nefndarinnar er að jafnaði annan hvern mánudag yfir veturinn og hefst kl. 14:00 í Birtu. Annað hvert ár hefur nefndin staðið að ráðstefnu á vegum HA og Félags eldri borgara.

Golfnefnd annast pútt í Íþróttahöllinni yfir veturinn og golf á Jaðarsvelli á sumrin.

Gönguklúbburinn fór fyrst sex ferðir sumarið 2017 á vegum stjórnar. Síðan var miðað við að gengið sé vikulega frá miðjum maí og út september. Miða er við 4-10 km. langar göngur, sem taka 1-3 klukkutíma. Sumarið 2021 tóku vaskar konur að sér göngu fram í desember. 2022 verður klúbburinn föst nefnd og þá mun starfsemin breytast. Félagar í EBAK fá dagsferðir Ferðafélags Akureyrar á félagsverði FFA, gegn framvísun félagsskírteinis.

Göngunefnd sér um gönguferðir í Kjarnaskógi yfir sumarið einu sinni í viku. Hver og einn ræður sinni gönguleið og gönguhraða. Göngufólk fer árlega í eina óvissuferð. Góð þátttaka hefur verið í störfum nefndarinnar. Nefndin hefur hvatt til að eldri borgarar gangi í Boganum yfir veturinn.

Skemmtinefnd stendur fyrir skemmtunum af ýmsu tagi. Þar má nefna kráarkvöld, árshátíð og vorhátíð. Einnig sér nefndin um bingó einu sinni í viku. Þá sér nefndin um ferð á jólahlaðborð í samvinnu við ferðanefnd.

Spilanefnd - bridds sér um keppni í bridds, tvímennings- eða sveitakeppni á fimmtudögum kl. 13-16. Að jafnaði er spilað á 7-9 borðum.

Spilanefnd – félagsvist sér um félagsvist, sem spiluð er vikulega kl. 20 á fimmtudagskvöldum. Gjarnan er spilað á 18-20 borðum, en flest hafa borðin verið 23.

Uppstillinganefnd vinnur úr nafnalista yfir þá sem hafa gefið kost á sér til starfa í stjórn og nefndum og auglýsir eftir fleirum. Félagar geta einnig komið tilnefningum eða uppástungum um aðila í stjórn eða nefndir á framfæri við nefndina.  Nefndin leggur fram tillögur yfir aðila í stjórn og fastanefndir félagsins. Þá leggur nefndin fram tillögu um tvo skoðunarmenn reikninga félagsins í samráði við stjórn. Tillögurnar skulu liggja frammi á skrifstofu félagsins og á heimasíðunni www.ebak.is í minnst tvær vikur fyrir aðalfund.

Kór eldri borgara, Í fínu formi, er öflugur kór, sem æfir tvisvar í viku í 9 mánuði ársins. Hann syngur við ýmis tækifæri og fer í söngferð á hverju vori. 50-60 söngvarar eru að jafnaði í kórnum. Hann heldur að jafnaði þrjú bingó á ári til fjáröflunar.

Netmiðlanefnd
 sér um að setja efni inn á heimasíðuna www.ebak.is. Einnig  að setja inn efni og hvetja nefndaformenn og aðra til að setja inn upplýsingar á fésbókarhópinn EBAK Félag eldri borgara á Akureyri.

Öldungaráð Akureyrarbæjar var stofnað 9. júlí 2015 að tilhlutan Félags eldri borgara á Akureyri. Ráðið er samráðsvettvangur bæjarbúa 60 ára og eldri, félagasamtaka þeirra, atvinnulífs og bæjarins og er virkur þátttakandi í allri stefnumótun málaflokksins eins og segir í samþykkt ráðsins. Vegna breytinga á lögum um öldungaráð hefur samþykkt ráðsins verið breytt. Í því eiga sæti þrír fulltrúar frá Akureyrarbæ, þrír frá EBAK og einn frá Heilbrigðisstofnun Norðurlands. Jafnmargir eru til vara.

Stundum er stofnaðar nefndir til að vinna að sérstökum nefndum, eins og til dæmis húsnæðisnefnd sem hefur stundum verið stjórn til aðstoðar vegna húsnæðismála. 

Lokaorð: Starfsemi félagsins byggist að mestu leyti á öflugu starfi nefnda og hópa og því er mikilsvert að sem flestir komi að nefndastarfinu svo þeir og aðrir félagar geti notið ánægjulegs og gefandi félagsstarfs. Félag eldri borgara á Akureyri er metnaðarfullt félag sem vill bjóða félagsmönnum og öðrum eldri borgurum í Akureyrarbæ upp á áhugavert tómstunda- og félagsstarf. Með því vill það stuðla að og viðhalda andlegri, félagslegri og líkamlegri færni félagsmanna og annarra eldri borgara til að njóta efri áranna, eftir vilja og getu hvers og eins.

Texti þessi var síðast endurskoðaður í apríl 2024.