Vísur úr félagsstarfinu

Hér koma vísur sem hafa verið skrifaðar í félgstarfinu.

Vísur frá ferðanefnd:

Vísur þær sem hér birtast á eftir eru fengnar frá Helgu Frímannsdóttur. Hún var starfsmaður félagsins á fyrstu átta árum þess og hélt saman vísum sem til urðu í ferðum á vegum félagsins og hún var með í.  Helga afhenti félaginu þessar vísur til varðveislu og birtast þær hér með stuttum  skýringum og nöfnum höfunda eins og það er skráð í þessum gögnum.

Ferð að Laugum í Dalasýslu 1983 

Skúr er nú í Skagafirði
skyldi hann ekki batna senn.
Andskotinn þá alla hirði
sem ausa vatni á gamla menn

                     Gestur Ólafsson.

Þetta þótti ljót vísa og þessi kom á móti:
Guðlasti það gengur næst
að gera svona vísu.
Ferðalagið gengi glæst
ef gæti ég náð í skvísu.

                   Sigurbjörn Benediktsson og fl.

En það var von í betra veður.
Í Skagafirði súld var svört
það sárnar Eyfirðingum.
Kannski sólin sjáist björt
og sæld hjá Húnvetningum.

                      Sigurbjörn Benediktsson.

Að gefnu tilefni:
Alltaf sama suddaþokan
af svörtu gerðinni.
Ingólfur með ælupokann
er á ferðinni.
Gestur Ólafsson.

Gússý galar meyja mest
máttu vel við una.
Þetta lífið léttir best
og lífgar náttúruna.
                    J:  S. og Y.

Sumum þóttu brauðsneiðarnar í Staðarskála í þynnra lagi:

Áður var hér engin neyð
allt af besta tagi.
En nú er svona sneið og sneið
sneydd í þynnsta lagi.
                  Gestur Ólafsson.

Á leið frá Staðarskála.

Kominn er af stað frá Stað
staðinn mun ég kenna.
Ingi þar ei bað um bað
en baðar í hylli kvenna.
                   Gestur Ólafsson.

Saddur er ég sæll og glaður
súldin minnkar regnið þverr.
Ég er eins og annar maður
eftir hressinguna hér.
                   Sigurbjörn Benediktsson.

Eftir að búið var að tala um að fólkinu yrði raðað niður í herbergi:

Ýmsu mun ég ennþá nenna
og þó góðu sagður lofa.
Ef ég lendi inn til kvenna
ekki er vanur því að sofa.
                Sigurbjörn Benediktsson.

Eftir fyrsta kvöldið á Laugum:

Komst ég hingað með kvölum
krókótta vætuleið.
Dauft er vatnið í Dölum
drakk ég það út úr neyð.
                   Gestur Ólafsson.

Í félagsheimilinu í Stykkishólmi skipti hagyrðingurinn um sæti við konu sína:

Innar í bekkin ég hef sest
hér öllu skipir máli.
Að frú mín notið fái best
fróðleiksins hjá Páli.
               Gestur Ólafsson.

Í Stykkishólmsferðinni:

Bjart er á öllum okkar leiðum
allt oss gengur nú í hag.
Sólin skín á himni heiðum
hér því blessum þennan dag.
                 Sigurbjörn Benediktsson.

Við upphaf ferðar:

Aldnir hafa orðið núna
enginn getur neitað því.
Segðu mér glerið gulli búna
hvort gaman verði Dölum í.
                           A. S.

Í ferðinni fyrir Klofning skipti Helga um sæti:

Nú er Helga farin frá mér
finn í hjarta brest.
Konan enn þá kúrir hjá mér
kanski er það best.
                   Gestur Ólafsson.

Þegar héldum vestur við
versna tók mjög útlitið.
Á því virtist verða bið
við að fyndum hótelið.
                  Sigurbjörn Benediktsson.

Við syngjum svo að heimur heyri
hvað er um að vera hér.
Aldraðir frá Akureyri
ætla að fara að skemmta sér.
                      A. S.

Í huganum rifjast upp berskunnar brek
ég er brandarastelpa og dálitið frek.
Nú vitlaus í fjöri um veginn ég ek
því vitið ég aldrei í ferðirnar tek.
                        Guðrún Árnadóttir.

Nývarð dásamaði fegurð heimasveitar sinnar í Ólafsfirði, svo að sumum þótti nóg um:

Vel er að guði gjörður
glampar á vötnin skyggð.
Enn þá er Ólafsfjörður
utan við mannabyggð.
                   Gestur Ólafsson.

Fararstjórinn tilkynnti í upphafi ferðar, að það væru 5 konur á hvern karlmann.

Fararstjórinn fagið kann
fór ekki yfir strikið.
Hafði fljóðin fimm á mann
og fannst það zíst of mikið.
                    Friðjón Ólafsson

Strax þegar Helgu ég hitti
hitnaði ört mitt blóð.
Hún er svo verðlauna veitul
vitur, falleg og góð.
                    Gestur Ólafsson

Alltaf hafði ég á þeim lyst
ævidaginn langan.
Enn þá get ég konur kysst
en kyssi þær nú á vangann.
                    Gestur Ólafsson

Þetta skíta aðferð er
þær annars flestar vona.
Gestur illa gamall er
að geta kysst svona.
                    Páll Friðfinnsson

Næsta ljóð er undir lagi og höfundur söng í rútunni:

Út um allar sveitir enn þá kátir aka
Akureyrarfélagar.
Sælir undir sönginn nú þeir taka
Akureyrarfélagar.
Hér verður kæti, en engin læti
ég vona að allir skemmti sér.
Og vel er skipað, í vönduð sæti
í vagninum sem hérna fer.
Okkur þykir öllum meira gaman
ef einhver gerast ævintýr.
Helga og Gússý seztar eru saman
svo mun hefjast bragur nýr.
Við erum kátar, eins og skátar
sem ætla í útileguferð.
Hér eru allir mestu mátar
í bíl með manni af beztu gerð.
Til Vesturlandsins veginn strax við tókum
vel mun reynast bifreiðin.
Hér klæðast allir sínum beztu brókum
brött eru fjöll og köld um kinn,
en kjarkurinn er óbilandi
og ekki vantar bros á vör.
Bara allir í bezta standi
og blessa Halldórs kostakjör.
                        Guðrún Árnadóttir

Næstu vísur urðu til vegna þess að bílstjórinn sem heitir Halldór vildi fá vísu um sig, að öðrum kosti myndi hann setja fólkið úr bílnum í Öxnadalnum eða einhversstaðar á leiðinni.  Tóku hagyrðingar þá til við að yrkja um hann svo að hann blíðkasðist og færi alla leið.

Þó ýmsra kosta iegi val
í endalokin ferða.
Ei ég vil í Öxnadal
eftirskilinn verða.

Því skal hefja lítið ljóð
og láta hér með flakka.
Með bros á vör svo blíð og góð
bílstjóranum þakka.
                     Sigurbjörn Benediktsson

Halldór ekur heim svo glaður
heiðar og dali þræða kann.
Sannkallaður sómamaður
í súld og regni Laugar fann.
                       Guðrún Árnadóttir

Halldór lét sig hverfa af ballinu og gaf þá skýringu að ef hann hefði farið að dansa við eina, hefði hann þurft að dansa við allar.

Öruggur rútunni ekur hann
um illfæra vegi sumar og vetur.
Og Laugar í þokunni líka fann
líklega gera ekki aðrir betur.

Hann virðist fleira kunna en að keyra
konur sýnilega þekkir á.
Veit þær heimta alltaf meira og meira
og munu aldrei næju sína fá.
                            Páll Friðfinnsson

Lofið á Halldóri álitið er
orðið næstum því mislukkað.
Nú Helga vill láta hrósa sér
ég held við ættum að gera það.
                             Páll Friðfinnsson

Gáta:

Nefnd í krók hjá Nývarði
notað um Jón, en heiti snót.
Fyrir bókar bæklingi
beyging orðs um tímamót.
                              Gestur Ólafsson

 

Ferð aldraðra frá Akureyri að Hallomsstað 21.-25. ágúst 1984

Þriðjudagur

Helgu þannig helst ég lýsi
hún er gæðakona,
ef hún væri öðruvísi
ekki bara svona.
                                     Gestur Ólafsson

Þegar lagt var af stað í ferðina lá þoka nokkuð niður í hlíðar Vaðlaheiðar og sagði fararstjórinn að menn yrðu ekki krafðir um þátttökugjald fyrrn en komið væri upp í þokuna. Þá brá bílstjórinn á það ráð að fara Víkurskarð en þar var þá þokulaust.

Við innheimtuna ýmsir fást
óðara en varði.
Eftir það að þokan brást
þar í Víkurskarði.
                                  Soffía Pálmadóttir

Á Skútustöðum.

Upp var stallinn aldnir stóðu
í ýmsum stellingum
með ýmsu móti í sig tróðu
uppáhellingum.
                                   Soffía Pálmadóttir.

Landið okkar ljúfa könnum
lítum ei á veginn blauta.
Það er auglýst eftir mönnum
ennþá vantar rekkjunauta.
                                     Gestur Ólafsson.

Auglýsingaorðaklækir
eiga nú að sýna gagnið.
hverjir reynast rekkjusprækir
ryðjast um og bíta á agnið?
                                   Friðjón Ólafsson.

Það voru 15 karlar en 35 konur í ferðinni. 

Það var heitt í bílnum.

Segi ég það enn oft oft
engu verður hér um þokað!
Þarna úti er þingeyskt loft
það er best að hafa lokað.
                             Gestur Ólafsson.

Öll við gleðjumst
öll við hlægjum
öll við erum hress í dag.
Öllum frá við ama bægjum
öll við syngjum þetta lag.
                                Guðrún Árnadóttir.

Erlingur er ofsa glaður
og ætlar að sjá um þennan hóp.
Þð hann sé sagður hæglætismaður
ég held hann þoli ei dufl eða skróp.
Helga er með og heldur saman ljóðum
hlægilegum vitlausum og góðum.
Hún er okkar stoð og stytta í dag
í allan vetur haft á hópnum stórfínt lag.
Endalaus eru hennar gæði
okkur sýnir alltaf þolinmæði.
Enn í dag.
                          Guðrún Árnadóttir.

 Til Helgu.
EF ég kynni að yrkja ljóð
eina stöku sendi ég þér,
en tilfinningalegt tómahljóð
tel ég vera í kolli mér.
                            Guðrún Árnadóttir.

Enginn þarf að efa það
um það vil ég ræða,
á hótelinu á Hallormsstað
hlakka ég til að snæða.
                                     Sigurbjörn Benediktsson.

Miðvikudagur:

Ég borðaði áðan eins og ég gat
orðinn fjarska svangur,
en frá því um tíu og fram að mat
fannst mér tíminn langur.
                                Gestur Ólafsson. 

Úti er himinninn heiður
hendi að auga skyggð.
Lögurinn lygn og breiður
liðast um fagra byggð.
                                   Aðalbjörg Sigurðardóttir.

Fimmtudagur:

Dável við undum okkar hag
þó er sú staðreynd föstu slegin,
að eftir himneskan heilladag
hvíldinni verðum ósköp fegin.
                                      Sigurbjörn Benediktsson.

Einn þú skemmtir okkur hér
átt og líka fáa.
Vilhjálmur við þðkkum þér
þennan daginn bláa.
                               Soffía Pálmadóttir. 

Fararstjóra höfðum hér
höfðingja af kyni. 
Þakkar flytja viljum vér
Vilhjálmi Hjálmarssyni. 
                                  Sigurbjörn Benediktsson.

 Föstudagur.

Það gleður bæði hal og hrund
hungrinu burtu forða.
Eftir skamma örskotsstund
er aftur farið að borða.
                                        Sigurbjörn Benediktsson. 

G.Ó. fékk lárviðarkrans á kvöldvokunni á föstudagskvöldið fyrir listræna tjáningu í leik og ljóði og orti þessa vísu af hópgværð og lítillæti.

Eykst minn hróður enn um sinn
yrki ég ljóð sem rímar,
Nálgast óðum „Nóbelinn“
nú eru góðir tímar.
                         Gestur Ólafsson.  

Laugardagur.

Til bílstjórans.

Um vegi hefur stðugt strekkt
í snjó að vetri.
Árna höfum við alltaf þekkt
en engan betri.

Enga hefir hann seggi svekkt
á sumri og vetri.
Öðling höfum áður þekkt,
en engan betri. 
                             Soffía Pálmadóttir.

Ferðin er hafin og fjári er nú gaman,
að finnast, syngja og tala saman.
Gestur í nefndinni glaður er
þá Gússý og Helga skemmta sér.
                               Guðrún Árnadóttir.

Það finnst víst skrýtið fyrirbæri
mín fróma ósk um það
að ég kominn aftur væri
austur að Hallormsstað.
                                        Sigurbjörn Benediktsson. 

Austurlandið er að baki
aftur kyrrt á Hallormsstað.
Þyngra er en tárum taki
tölum ekki meir um það.
                                    Gestur Ólafsson. 

 

Ferð í Reykholt 4.-9. júlí 1985.

Út í buskann er að fara
aldurhnigin fjölhæf þjóð,
og við vonum bara, bara,
bara að ferðin verði góð.
                              Soffía Pálmadóttir.

Þegar komið var í Öxnadalinn gekk starfskrafturinn í að innheimta fargjaldið.

Reiging og hörku rukkarans
raun er hve margir virða.
Síðasta fjársjóð fátæks manns
fer hann létt með að hirða.
                                Gestur Ólafsson. 

Ég auðugur hugðist er hélt ég af stað,
en Helga þeim viðhorum breytti.
Hve mjög sem ég kvartaði og blítt sem ég bað
hún blóðfjaðrir af mér reytti.
                                      Baldur Eiríksson.

Stórskáldin sátu vítt og breitt í bílnum, í aftasta sæti og fremsta og einnig í miðju. Nokkrar hnútur köstuðust á milli þeirra.

Aftur í skut er alltaf geim
þar yrkjum við sem dýrast,
oss finnst það lítið fútt hjá þeim,
sem frammi í stafni hýrast.
                                 Baldur Eiríksson. 

Í skutnum eru skrýtnir menn
skömm er frá að segja,
en við hérna miðskipsmenn
munum ekki þegja.
                                   Soffía Pálmadóttir.

Friður, hreysti og fegurð lifir
í fremstu stólunum,
þó er mestur andinn yfir
afturhjólunum.
                                   Gestur Ólafsson.

Í þriðja sinn í svona ferð
sest ég upp í bílinn,
í vinahópi vísnagerð
vil ég færa í stílinn.
                                               Aðalbjörg Sigurðardóttir.

Að hressa upp á sálina við og við
það vildi ég kalla góðan sið,
því best gengur allt ef geðið er glatt,
það getið þið alveg haft fyrir satt.

Menn verða ungir í annað sinn
og æða inn í bílinn með bros á kinn.
Þeir tralla og syngja og hafa hátt
og halda það út fram á rauða nátt.
                                            Guðrún Árnadóttir.

Á föstudaginn var farið í kaupfélagið í Borgarnesi og síðan til Akraness, þar sem ekið var um bæinn og farið í minjasafnið. Erfitt reyndist að vinna stað þar sem hægt væri að komast á snyrtingu.

Ekið var í einum fleng
ei má þessu flíka.
Karlar eru komnir í spreng
og konur jafnvel líka.
                                        Soffía Pálmadóttir.

Furðulegt er að flestir vaga
fram á kvöld á snyrtingu.
Annars fer ég alla daga
út fyrir vegg í birtingu.
                                       Gestur Ólafsson. 

Fararstjórinn virtist þreyttur á bæjarnöfnum og taka seint við sér þegar starfskrafturinn las þau upp fyrir hann. 

Ekki kann ég á því skil
ó að ég væri heim.
Bæjarnöfn eru búin til
bara til að gleyma. 
                                    Gestur Ólafsson. 

Gestur er fljótur að gleyma,
gagnslausri minningu.
Hugurinn er víst heima
hjá henni Guðlaugu.
                                           Aðalbjörg Sigurðardóttir.

 Í Reykholti.

Mér finnst Snorr'i hafa gert það gott
ég get ekki annað en dáð'ann.
mann var fyrstur með heitan pott,
þið hafið víst séð 'ann áðan.
                                 Gestur Ólafsson. 

Aftur í ferða búumst brók
um Borgarfjörð að keyra,
ort var í gær svo undir tók,
sem allir máttu heyra.

Við það léttist lundin mín
líkt og bál í sinu,
þegar Helga og Gestur grín
gerðu hvort að hinu.

Allt það gleði bætti brag
bara féll í kramið,
yrki þeir svo í allan dag
sem alltaf geta samið.
                               Óskar Gíslason.

Til fararstjórnar.

Ef við spyrjum allir svara
eftirfarandi:
„Fararstjórnin finnst mér bara
framúrskarandi“.
                              Höfundur óþekktur.

Eftir ball á laugardagskvöldið.

Skil ég víst að skapið batni
skín úr augum spillingin.
Horfa þær og halda ei vatni
á „harmonikusnillinginn“.
                                       Gestur Ólafsson. 

Haldið var heim á mánudagsmorgun, þegar við höfðum kvatt kóng og prestinn sem talaði á milli.

Ágæt ferð var okkar gjörð
um hinn landsfræga Borgarfjörð,
þar við höfum farið víða.
Nú kveðjum við Snorra kostajörð
og klerkinn enn hökufríða.
                            Baldur Eiríksson.

Skrifað á spurningalista hótelsins, sem skilað er oft við brottför.

Stöðugt þegar stundir líða
stendur eftir fögur minning,
vinahót og viðmótsþýða
verður æ hin besta kynning.
                                   Gestur Ólafsson. 

Ferðaþreyta fer ei leynt,
fjörið er ljóst að bresti,
starfskrafturinn hann er hreint
hættur að stríða Gesti.
                                      Baldur Eiríksson. 

 Tilfinningum létt má lýsa
og láta flakka bara,
því er engin ástarvísa
í öllum þessum skara?
                                              Aðalbjörg Sigurðardóttir

Yrki ég sjaldan ástarvísur,
ýti milli báru og skerja.
Elska bara allar skvísur,
en óskaplega lítið hverja.
                                       Gestur Ólafsson.

Bílstjórinn er besti drengur
beygjur og króka alla tók.
Á Akranesi afskaplega
á sinn hróður mikið jók.
                                                Aðalbjörg Sigurðardóttir.

Bílstjórinn er blessað ljós,
í báðar ættir Þingeyingur,
á hann skilið ágætt hrós
ökumaður fjári slyngur.
                                          Guðrún Árnadóttir

Heillavinur hér um borð
hlustið á ræðu mína.
Mig langar að segja lokaorð,
leið fer nú að dvína.

Vísnagerðin var nú kort
varð ei af því glaður.
Ég gat bara ekkert ort
eyðilagður maður.

Því hef ég lítið þanið kjaft
þularfrlðum bundið,
efnið þó ég hafi haft
hef ei orðin fundið.

Þetta alveg segi ég satt,
sem ég læt hér flakka,
en ferðalagið gott og glatt
gjarna vil ég þakka.

Við þið nú síðan sæl,
safnið nýjum kröftum.
Förum í aðra ferð um hæl
og feikna mikið kjöftum.
                               Óskar Gíslason.

Er hún flúin undan mér,
eitthvað trúi ég bresti.
Ætli frúin uni sér
að eiga bú með Gesti?
                                         Einn sem fékk ekki að fara með. 

 

Ferð Félags aldraðra á Akureyri að Hallormsstað 19.-23. ágúst 1985.

Á fimm daga ferðalagi eru litlar ýkjur að sést hafi til sólar tvisvar sinnum og afar stutt í einu.

Allir kætast það ég þekki
og það má vona.
Ef að veðrið verður ekki
verra en svona.
                                 

Þykka sjáum þokumekki
þekja leitin fleiri og fleiri.
En sólskinsskapið svíkur ekki
sómafólk af Akureyri.
                              Soffía Pálmadóttir.

 Í Mývatnssveit var skolað af bílrúðunum um leið og farið var þaðan.

Þótt við öslum aur og elg
af ýmsu tagi.
Ef við grillum í hann Belg
er allt í lagi.
                                 Soffía Pálmadóttir.

Af mér leysti andans hlekki
örvaði starf hjá heilasellum.
Fararstjórinn fór um bekki
með fulla dós af karamellum.
                                     Sigurður Jónasson. 

Í Fljótsdal.

Ilmbjörkin var aldrei hér
til útlendinga talin,
en lúpína og lerki er
að leggja undir sig dalinn.
                               Soffía Pálmadóttir.

Á leið frá Mjóafirði.

Dýrðlegt er á Dalatanga
döggin hlýja leikur um vanga
eftir firðinum endilanga
ætluðum við á þennan stað,
en mikið varð nú minna um það.
Þar munu blessuð blómin anga
og bíða okkar, nema hvað.
                               Soffía Pálmadóttir

 Öll eru trén hvert öðru lík
undirþokuhjúpnum gráa.
Unaðsleg er Atlavík
út við Löginn fagurbláa.
                                 Sigurður Jónasson. 

Horfum yfir hraunin breið
og Hrossaborg á miðri leið
lítið sjá um loftin heið
leið eru manna sinni.
Held nú samt að Herðubreið
haldi stöðu sinni.
                             Soffía Pálmadóttir.

Hálendis þá held ég leið
horfi ég með lotning
til þín háa Herðubreið
heiða- og fjalladrottning.
                               Höfundur óþekktur.

Til bílstjórans.

Bílstjórinn er fremri flestra vonum
og flestir leika hér við hvern sinn fingur.
Hann er einn af hraustum landsins sonum
hann er meira, hann er Keldhverfingur.

Þú varst strax í æskunni öðruvísi en fjöldinn
þitt eðli var betra og það er lítið breytt.
En væri þú aleinn með Helgu seint á kvöldin
ég veit að þig langar en gerir ekki neitt.
                                           Höfundur óþekktur.

Ferð aldraðra frá Akureyri að Laugarvatni 21.-25. júní 1986

Í Kræklingahlíð 

Víst í heiði sumir sjá
sólina heiða og bjarta.
Nú er komið út fyrir á
enginn farinn að kvarta.
                              Gestur Ólafsson.

Á ættaróðali á Þelamörk sjáust engir á ferli.

Hér er Helga Frímanns fædd
faðir hennar hét þá Frímann.
Hún er miklum gáfum gædd,
en geymir þær fyrir seinni tímann.

Ennþá bíður óðalið
er það hlíðar prýði.
Hennar fríða frændalið
fer að skríða úr hýði.
                            Gestur Ólafsson. 

Dauflegt að ferðast um frægan reit
ef fróðleik brestur.
En það sem Helga varla veit
það veit hann Gestur.
                             Soffía Pálmadóttir.

Sunnudaginn 22. júní var ekið að Gullfossi og Geysi í skínandi veðri. Fararstjóri og starfskraftur voru ekki alltaf sammála. Ágreiningsmál voru ýmis, t.d. hvort og hve nákvæmlega skyldi lýsa leiðinni sem farin var.

Hérna finnst mér landið ljótt
og langar ekki að masa um það,
enginn kamar, engin tótt
án þess Helga fjasi um það.
                          Gestur Ólafsson. 

Leikur okkur veðrið við
víðast logn og blíða.
Við sáum blessað sólskinið
suðurlandið prýða.
                           Friðrika Tryggvadóttir.

Rútan léleg, vondir vegir
vagnstjórann ég snilling tel.
Gerist lítið. Gestur þegir.
Gestur stjórnar þá svo vel.

Þó að ríki vildarveður
vart að útsýn hér er dáðst,
enginn kamar augað gleður,
engin tóttarbrot hér sjást.

Eyjafjörður öllum framar 
af öðrum sveitum landsins ber,
þar reisti Gestur góðan kamar
glæstan minnisvarða sér.

Við langar ræður lítt sig tafði,
að lokum fann það heillar´ða
er að skotspón Helgu hafði,
og hún var ljótum orðum smáð.
                                    Páll Friðfinnsson. 

Starfskrafturinn steig á festi
strengdi heit.
Að fara aldrei aftur með Gesti
upp í sveit.
                                      Aðalbjörg Sigurðardóttir

Hlöðver keyrir svo ótrauður áfram
eins og honum er tamt.
Þó mjórri séu brýrnar en bíllinn
hann brundar yfir þær samt.
                                      Friðrika Tómasdóttir.

Athygli vakti hve mikið var um fé í túnum.

Um Jónsmessuleytið þau leika sér dátt
í lyngmónum grænum og hlýjum.
Fyrri daga þú muna mátt
er mæðurnar voru í kvíum.
                                Soffía Pálmadóttir.

Mánudag 23. júní var farið í Þjórsárdal og komið í Skálholt í leiðinni. Viðgerðir stóðu yfir á brú við Iðu og olli það smá töfum.

Áfram höldum enn á ný
ókunnugar slóðir
í góðu veðri frjáls og frí
og flestir vegir góðir.
                                     Aðalbjörg Sigurðardóttir

Við Iðu við biðum 
og ýmsu kviðum
og einhverjir fengu í hnén,
áhættu seldir
og allnokkuð hrelldir
er aðgerðin þarna var skén.
Til Laugarvatns fórum
með fögnuði stórum
þá framkoma okkar var pen.
                                    Soffía Pálmadóttir.

Við etum og drekkum og iðkum trimm
og ánægður sérhver gestur.
Tíminn á milli tvö og fimm
er talinn allra bestur.
                                  Soffía Pálmadóttir.

Situr Helga hnípin ein
horfinn burt er Gestur,
en aftur í á grænni grein
hjá Guðnýju er hann sestur.

Tími nokkuð langur leið
loksins kom sá þráði:
„Elsku Helga, ertu reið?“
„Ekki neitt að ráði“.
                                      Friðrika Tryggvadóttir.

Er að fara en ekki farinn
illa farinn - varla rótt -.
Núna treysti ég bara á barinn
bara ég komist þangað fljótt.
                                 Gestur Ólafsson. 

Þriðjudag 24. júní var farið í kaupstaðarferð að Selfossi, Eyrarbakka, Stokkseyri og Hveragerði.

Á meðan Íslands aldna þjóð
eitthvað gott vill heyra
munu okkar lipru ljóð
láta vel í eyra.
                          Guðrún Árnadóttir.

Eftir Jónsmessunótt:

Döggin er svo dularmögnuð
dásamleg Jónsmessunótt.
Öll hljóð dagsins eru þögnuð,
og allir sofa rótt.

Ég held aðeins ein þó vaki
og ætli að velta mér,
en á næsta andartaki
upp í rúmið fer.

Þá fer hana að dreyma dögg
og dásamlegan mann
og sykurlausa svaladögg
ég segi ei hver er hann.
                                    Friðrika Tómasdóttir.

 Til starfskraftsins.

Hér dotta margir og draga ýsur,
dásamlegt veðrið er,
Jónsmessunæstur veltuvísur
vildi ég syngja með þér.
                                   Friðjón Ólafsson.

Miðvikudag 25. var haldið heim, en kvöldið áður var kvöldvaka með ýmsum skemmtiatriðum og dansi, en það bar til tíðinda að konur, sem voru í húsmæðraorlofi í öðru skólahúsi á Laugarvatni komu í lok kvöldvökunnar. Vildu þær komast á barinn og einnig blanda geði við Akureyringa og þá ekki síst við hið svo nefnda sterka kyn, en fátt er um þannig gripi í húsmæðraorlofi. Vörðust menn misvel eins og gengur. En í dansinn gengu menn af miklum móði áður og eftir að húsmæðraorlofskonur voru mættar.

 Ég dansaði af djöfulmóð
drottinn minn þvílíkt puð,
á bægslunum áfram óð
örmagna, það veit guð.

Gunnar með glæsibrag
gengur í dansinn inn.
Loks eftir langan dag
leggur nú kinn við kinn.

Nývarð af næmum smekk
naut hér hins frjálsa lífs,
í dansinn hann glaður gekk
geislaði úr augum vífs.
                           Gestur Ólafsson.

Hylla margir Heimeyinginn
hlý eru fljóðin þar.
Best er að mæla blóðþrýstinginn
bara um fæturnar.

Guðný allra bætir brest
best af líknarsnótum.
Búin er að gera við Gest
hann gengur á öllum fótum.
                                   Óskar Gíslason. 

Ef vilji er nægur ekkert er,
sem athöfnum setur skorður.
Eigið þið flösku að færa mér?
Við förum með Laugarvatn norður.

Við ætlum að koma á afvikinn stað
annast þarf vel um hárið.
Gesdti að koma í glóðheitt bað
það gleymdist í morgunsárið.
                                          Soffía Pálmadóttir.

Enn lifir í eðlishvötum
enginn vafi á því.
Ofan að mitti fækka fötum
frúrnar aftur í.

Upp sér vilja ýmsir lyfta
af því þeir hafa frí.
Gestur vildi gjarnan skipta
og ganga aftur í.
                                Óskar Gíslason.

Óskar er að afklæðast
aftur í bílinn sestur,
honum eftir fylgir fast
fararstjórinn Gestur.
                                 Soffía Pálmadóttir?

 

 

Hér koma tvær vísur sem Kristín Gunnarsdóttir lét okkur hafa þegar við kynntum heimasíðuna 13 janúar 2014.

Kveðið nú í haust:
Kaldur vetur kíkir inn
kominn til að vera.
Efað hress er hugurinn
hægt er margt að gera
                Kristín Gunnarsdóttir.

Ráðleggingarvísa.

Þegar ellin þrengir að
þá má hugsa betur.
þú skalt gera öllu að
ögn meira en þú getur.
                  Kristín Gunnarsdóttir.

                                                                                          

Jóhanna Jóhannsdóttir                                                        90 ára 27. jan. 2015.

Af því tilefni voru henni fluttar eftirfarandi afmælisdiktur
í glæsilegri afmælisveislu sem hún hélt í Bugðusíðunni: 

Ég finn það svona á mér
að einhver kona hér
hún afmæli á sér,
ég veit að það er konan
sem kynntist mér og þér.

Sem gleði öllum gaf,
á góðmennskunnar haf,
er tignarleg með traf.
Hún læðist ekki og laumar sér,
ei lítur vinum af.

Ég veit að þú ert kona
sem kemur þér svo vel
við alla, það ég tel,
hendur þínar hjálplegar
og hugar- gott þitt þel.

Nánast eins og ný
níræð ertu því,
glaðleg æ og sí.
Víst ert mjög vönduð kona
vinamörg og hlý.

Höf.: Gunnur Ringsted, Heimir Kristinsson                                  Lagboði: Konan sem kyndir ofninn minn (Sverrir Helgason)