Í FÍNU FORMI – KÓR ELDRI BORGARA Á AKUREYRI

Kór eldri borgara á Akureyri, Í fínu formi, hefur starfað frá árinu 1986. Stjórnendur frá upphafi hafa verið Sigríður Schiöth, Guðjón Pálsson, Petra Björk Pálsdóttir, núverandi stjórnandi, og Valmar Väljaots, sem leysti Petru af meðan hún fór í námsleyfi og vegna veikinda hennar, en auk þess hefur hann verið meðleikari kórsins hin síðari árin.

Formaður kórsins er Aðalbjörg Áskelsdóttir. Í kórnum eru nú tæplega 60 félagar en aldursviðmið er 60+. 

Kórinn æfir tvisvar í viku frá því í byrjun september og fram í miðjan maí. Æfingarnar fara fram í Víðilundi 22 á mánudögum og fimmtudögum kl. 16:30-18:30.

Hljómdiskur með lögum ÍFF var gefinn út 2011.

Kórinn hefur árlega staðið fyrir tónleikum af ýmsu tagi, tekið þátt í kóramóti eldri borgara á Norðurlandi, sem haldið er annað hvert ár. Farið í ýmis tónleikaferðalög víðs vegar um landi og sungið m.a. á Neskaupstað, í Garðabæ, Vestmannaeyjum, Vestur-Húnaþingi og víðar. Utanlandsferðir kórsins hafa verið til Eistlands, Danmerkur og til Færeyja. Allar þessar ferðir hafa tekist mjög vel. 

Fastir liðir eru að syngja fyrir fólkið á Grenilundi, í Hlíð, á Kristnesi og í Lögmannshlíð um jól og áramót. Einnig hefur kórinn haldið vortónleika í Akureyrarkirkju, síðast söng Baldvin Kr. Baldvinsson þar einsöng með kórnum. Jólin er gjarnan sungin inn í Glerárkirkju með kirkjukórnum þar, sungið hefur verið við messu á degi aldraðra í Akureyrarkirkju. 

Einnig hefur kórinn sungið á heilsuráðstefnu (HA), við útskrift í HA, vorsýningu í Víðilundi og svona mætti lengi telja. 

Þá stendur kórinn fyrir bingói þrisvar sinnum á hverju starfsári. 

Kórfélagar fjölmenna svo á jólahlaðborð, árshátíð og þorrablót eftir því sem aðstæður leyfa. Þær skemmtanir hafa oft verið haldnar í sal EBAK í Bugðusíðu 1, en einnig í Golskálanum Jaðri. 

Eins og sjá má er starfsemi kórsins mjög öflug og er þátttaka í honum því mjög gefandi í víðtækum skilningi þess orðs. 

Nokkrar myndir frá kórstarfinu má sjá hér til hliðar á ebak.is undir liðnum Myndir.