Inn til jökla og út til nesja

,,Inn til jökla og út til nesja"

 Minni á fjögurra daga ferð um austurland 31. ágúst til 3. september. Ferðin kostar 90 þúsund kr.; allt innifalið; gisting, veislumatur á hverju kvöldi, léttur miðdegismatur aðra daga. Aukagjald vegna eins manns herbergis er 16.000 kr.

 Þegar er vel bókað í ferðina, en markmiðið er að ná 50 manns. Hvet þá sem þegar eru búnir að bóka sig að hvetja aðra með sér. Það er búið að leggja í mikla vinnu við að skipuleggja ferðina og hún verður eftirminnileg Staðfestingargjald kr. 15.000.- greiðist fyrir júnílok. Eftirstöðvar 15 dögum fyrir brottför. Greiðist á bankareikning 162-26040030. Kt 651082–0489. Setjið skýringu með: Ferð 6. Ég er enn í einangrun á sjúkrahúsi, en svara fyrirspurnum á gis@simnet.is og á skilaboðum. Hlífið mér við hringingum. Ég og Systa mín Ring verðum fararstjórar og leiðsögumenn, auk Ólafs Áka Ragnarssonar og fleiri góðra heimamanna.

Fyrsti dagur: Ekið frá Akureyri austur um heiðar, dali og fjöll. Áð í stutta stund í Mývatnssveit, en síðan ekið að sæluhúsinu við Jökulsá á Fjöllum. Því næst verður lagt á Fjöllin um Biskupaháls og Víðirdal í Möðrudal. Þar verður stutt vatnslosunaráning, en síðan ekið yfir fjallgarðana og í Sænautasel, þar sem bíður hressing að íslenskum sveitasið. Eftir það verður ekið inn Jökuldals-heiðina, fræðst um býlin sem þar voru og síðan lagt á öræfin í átt að Kárahnjúkum. Þar verður farið yfir Jöklu á stíflunni sem myndar Hálslón. Síðan verður ekið um Vesturöræfin vonandi í góðri fjallasýn við rætur Brúarjökuls og Snæfells. Staldrað verður við í Laugafelli, þar sem boðið verður upp á hressingu. Loks verður ekið niður í Fljótsdal og þaðan í Hallormsstað.

Annar dagur: Byrjað á að heimsækja Óbyggðasetrið að Egilsstöðum í Fljótsdal. Þar er allt með fornum hætti, en safnið er byggt upp til sýna gestum það sem einu sinni var. 

Frá Egilsstöðum verður haldið í Skriðuklaustur, sem skáldið Gunnar Gunnarsson og Franziska kona hans byggðu upp 1939. Þau gáfu Íslenska ríkinu síðan jörðina með öllum mannvirkjum árið 1948. Þar er fróðlegt að koma, ganga um setrið með leiðsögn og kynnast þannig skáldinu og verkum þess. Í Klausturkaffi fáum við léttan miðdagsverð. Frá Skriðuklaustri verður haldið niður Fellin, allt til Fellabæjar og þaðan áfram hjá Urriðavatni, norður Hróarstungu og yfir fljótið hjá Lagarfossvirkjun. Síðan verður ekið að ósum Héraðsflóa og þvert yfir gömlu Hjaltastaðaþinghá. Eftir það klifrum við upp Vatnskarðið og hvílum ekki fararskjótann fyrr en í Bakkagerði í Borgarfirði eystra. Þar heimsækjum við gamla kaupfélagið, þar sem eitt sinn var allt það til sem Borgfirðingar þörfnuðust, vegna þess að þeir vissu ekki að annað væri til. Nú er þar hins vegar eingöngu að hafa landa, gin og öl. Við fáum leiðsögn um svæðið og einnig fáum við að bragða þær veigar, sem þarna eru framleiddar.

Þriðji dagur: Þriðja daginn  höldum við frá Hallormsstað og ökum út Skóga og síðan inn Skriðdalinn til botns hans og loks yfir Öxi. Þá komum við niður í Berufjarðarbotn, en ökum þaðan suður á Djúpavog. Þar mun Ólafur Áki Ragnarsson taka á móti okkur og kynna staðinn. Ólafur er fróður um sögu byggjarðalagsins og nærsveita, þannig að við rænum honum með okkur um Suðurfirðina. Förum Berufjörðinn, um Breiðdal og Breiðdalsvík og þaðan í Stöðvarfjörð. Þar er stórmerkilegt steinasafn Petru, sem við skoðum, en höldum síðan áfram til Fáskrúðsfjarðar, þaðan yfir á Reyðarfjörð og um Fagradal til Héraðs.

Fjórði dagur: Ekið frá Hallormsstað um Skóga og Velli til Egilsstaða. Þar verður staldrað við í frjálsum tíma. Hafi einhverjir hug á að nýta þann tíma til baðferðar hjá Vök í Urriðavatni verður þeim ekið þangað, en þeir greiða sjálfir aðgangseyri að böðunum. Frá Egilsstöðum verður farið yfir Lagarfljótsbrú, um Heiðarendann yfir á Jökuldal. Jökuldalurinn er langur og við ökum fram hjá mörgum kennileitum. Við förum inn að Stuðlagili, en þess má njóta frá bökkum beggja vegna Jökulsár.

Margir fara að austanverðu. Þá er farið yfir Jökulsána hjá Klausturseli inn að eyðibýlinu Stuðlafossi. Þaðan þarf að ganga. Mörgum finnst gilið tilkomumeira af austurbakkanum, en það er smekksatriði. Hinn kosturinn er að fara inn að Grund. Þar er gengið fram á útsýnispall og niður brattar tröppur niður á annan pall, þaðan sem hægt er að njóta gilsins. Við munum gefa fólki kost á að velja; þeir sem treysta sér í göngu verða eftir við Stuðlafoss á meðan hinir renna inn að Grund.

Að því loknu fáum við okkur hressingu og höldum heim á leið. Stefnum að því að vera komin til Akureyrar fyrir kvöldmat.

 Gísli Sigurgeirsson.