Byggingaráform EBAK og Búfestis í uppnámi

 

Stjórn Félags eldri borgara á Akureyri (EBAK) hefur verið í góðri samvinnu við Búfesti um árabil um að byggja fjölmargar íbúðir fyrir eldri borgara að Þursaholti 2 til 6 á Akureyri . Félagið hefur komið að hönnun íbúðanna með sérstöku tilliti til þarfa eldra fólks. Búfesti er óhagnaðardrifið húsnæðissamvinnufélag sem á og rekur um 260 íbúðir á Akureyri og Húsavík. Búsetum hefur hingað til verið gert mögulegt að eiga 10 til 30 % eignarhlut í íbúðunum, en nú eru þau áform í uppnámi vegna nýrra lánaskilyrða Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS). Stjórn Búfestis hefur frestað að fara af stað með framkvæmdir við Þursaholt þrátt fyrir að búið sé að bjóða út jarðvegsvinnu og uppsteypu á kjallara og fá mjög hagstætt tilboð í þann hluta. Í þessu verkefni er fyrirhugað að byggja allt að 100 íbúðir fyrir félagsmenn EBAK sem hafa mjög mismunandi getu til kaupa á 10-30% búseturétti. Miðað við tekjuviðmið HMS virðast um 2/3 félagsmanna Ebak ekki falla undir ný tekju- og eignamörk HMS til lánveitinga. Það getur varla verið stefna HMS og þar um leið ríkisvaldsins að byggja fjölmennar blokkir bara fyrir láglauna- og eignalítið fólk og það er alls ekki stefna Akureyrarbæjar. Góð blöndun fólks með mismunandi greiðslugetu í fjölbreytilegum hverfum og byggingum, er, að okkar mati, það sem þjónar best margbreytileika íbúa þessa lands.

Stjórn EBAK vill því skora á HMS og innviðaráðherra að breyta sem allra fyrst þessum nýju lánaskilyrðum HMS svo halda megi áfram við nauðsynlegar húsbyggingar Búfestis og EBAK á Akureyri. Vert er að minna á að það bráðvantar húsnæði fyrir eldri borgara á Akureyri og þessi byggingaráform eru hluti af lausn á þeim vandræðum.