Ályktanir aðalfundar EBAK

Ályktun aðalfundar EBAK 2022 – Aðgerðaáætlun

Aðalfundur Félags eldri borgara á Akureyri, haldinn 29. mars 2022, fagnar samþykkt fyrsta áfanga aðgerðaáætlunar fyrir eldra fólk á Akureyri og þakkar framlag vegna hennar við gerð síðustu fjárhagsáætlunar Akureyrarbæjar. Fundurinn skorar á bæjaryfirvöld að vinna samkvæmt tímasettri áætlun og láta framkvæmd ekki dragast, en nokkur mál eru þegar orðin á eftir áætlun.

Jafnframt er mjög brýnt að halda þegar í stað áfram við gerð annars áfanga aðgerðaáætlunarinnar. Af mörgu er að taka. Góða heimaþjónustu þarf til að fólk geti búið sem lengst heima eins og ósk flestra er. Fjalla þarf um húsnæðismál og búsetu eldra fólks, samgöngur og verðlagningu á þjónustu. Einnig er mjög brýnt að  upplýsingagjöf og öll þjónusta við eldra fólk sé samhæfð milli sveitarfélaga, ríkis og einkaaðila.

Akureyrarbær á að sýna frumkvæði og metnað í þjónustu við eldra fólk og hefja því sem fyrst undirbúning við að móta heildarstefnu bæjarins í málefnum þess og að gera bæjarfélagið að aldursvænu samfélagi.

 

 Ályktun aðalfundar EBAK 2022

Húsnæði fyrir félags- og tómstundastarf

Aðalfundur Félags eldri borgara á Akureyri, haldinn 29. mars 2022, ítrekar áskorun til Akureyrarbæjar um að hefja sem fyrst vinnu við að leysa skort á húsnæði fyrir félags- og tómstundastarf eldra fólks í bænum. Núverandi húsnæði félagsmiðstöðvanna nægir engan veginn til að sinna því sem skyldi, hvorki fyrir félagið né Akureyrarbæ.

Með áskorun þessari vill fundurinn hvetja bæjaryfirvöld til dáða svo aðstaðan hér verði á hverjum tíma sambærileg við það sem gerist hjá öðrum sveitarfélögum af svipaðri stærð.

Við skipulag á slíku húsnæði er nauðsynlegt að hafa samráð við Félag eldri borgara, öldungaráð og forstöðumann tómstundamála.