Aðalfundur EBAK 1. apríl 2019.

Aðalfundur EBAK var haldinn 1. apríl sl. í Bugðusíðu 1. Hófst hann stundvíslega kl. 13:30. 123 félagar mættu á fundinn. 

Gestur fundarins var Bergljót Jónasdóttir, forstöðumaður tómstundamála hjá Akureyrarbæ.

Frestað var að ákveða árgjald félagsins fyrir árið 2020 þar til á næsta aðalfundi. Árgjald okkar 2019 er kr. 2.500 og er með því lægsta sem gerist hjá félögum eldri borgara. Rekstur hvers árs þarf að standa undir sér fjárhagslega, til þess að ekki þurfi að ganga á sjóð félagsins. 
Sjálfkjörið var í stjórn og allar nefndir félagsins, því engar tillögur um breytingar höfðu borist til stjórnar viku fyrir fundinn. 
Staðfest var kjör fulltrúa okkar í öldungaráð Akureyrarbæjar. Þau Sigríður Stefánsdóttir, Valgerður Jónsdóttir og Halldór Gunnarsson munu því verða fulltrúar okkar til vosins 2022, en þá lýkur kjörtímabili bæjarstjórnar og þar með öldungaráðs. Tilnefning stjórnar um varafulltrúa í ráðið var einnig staðfest. Varamenn eru því Hallgrímur Gíslason, Hrefna Hjálmarsdóttir og Hjörleifur Hallgríms. 
Á fundinum var eftirfarandi ályktun frá stjórn félagsins samþykkt samhljóða:

  1. Ályktun aðalfundar EBAK 2019.

Á aðalfundi Félags eldri borgara á Akureyri sem haldinn var 1. apríl 2019 lagði stjórn félagsins fram eftirfarandi tillögu:

Í velferðarstefnu Akureyrarbæjar segir m.a. að eitt af markmiðum bæjarins sé  að leggja sérstaka áherslu á hreyfingu og almenna heilsueflingu eldri borgara. Aðalfundur EBAK telur mikilvægt að Akureyrarbær í samstarfi við félagið fylgi þessari stefnumörkun eftir með markvissum hætti. Það verði best gert með því að fela öldungaráði Akureyrarbæjar að hafa forgöngu um stofnun starfshóps til að undirbúa aðgerðaáætlun til næstu þriggja ára, sem feli í sér aukna almenna heilsueflingu og hreyfingu eldri borgara í bæjarfélaginu. Verkefnið verði unnið í samráði og samstarfi við öldungaráð og Félag eldri borgara á Akureyri.

Akureyri 1. apríl 2019

Stjórn EBAK

 

Í fundarlok var þeim einstaklingum sem láta af störfum í stjórn eða nefndum/klúbbum félagsins þakkað fyrir góð störf og ánægjulega samvinnu. 

2. apríl 2019. Hallgrímur G.