Í FÍNU FORMI – KÓR ELDRI BORGARA Á AKUREYRI

Kór eldri borgara á Akureyri, Í fínu formi, hefur nú starfað í 28 ár, þ.e. frá árinu 1986. Stjórnendur frá upphafi hafa verið Sigríður Schiöth, Guðjón Pálsson, Petra Björk Pálsdóttir, núverandi stjórnandi, og Valmar Väljaots, sem leysti Petru af meðan hún fór í námsleyfi, en auk þess hefur hann verið meðleikari kórsins hin síðari árin.

Formaður kórsins er Baldvin J. Bjarnason. Í kórnum eru nú 56 félagar en aldursviðmið er 60+. 

Kórinn hefur árlega staðið fyrir tónleikum, sungið á elli- og dvalarheimilum fyrir jól og um áramót, sungið á heilsuráðstefnu (HA), sótt kóramót eldri borgara á Norðurlandi sem haldið er annað hvert ár og farið í ýmis tónleikaferðalög, t.d. sungið nýlega á Neskaupstað, í Garðabæ, Vestmannaeyjum og víðar. Utanlandsferðir kórsins hafa verið til Færeyja og til Danmerkur.

Hljómdiskur með lögum ÍFF var gefinn út 2011.

Á síðasta starfsári var ekki slegið slöku við. Kórinn æfði tvisvar í viku frá því í byrjun september og fram í miðjan maí. Sungið var fyrir fólkið á Grenilundi, í Hlíð, á Kristnesi og í Lögmannshlíð. Einnig voru jólin sungin inn í Glerárkirkju ásamt með kirkjukórnum þar. Kirkjan var full af fólki og söng.

Þorrablót var haldið í Bugðusíðu og tókst með ágætum. Hápunktur starfsársins var síðan fjögurra daga ferð um Vestfirði þar sem sungið var á Ísafirði og Þingeyri. Leiðsögumaður var Björn Teitsson fv. skólameistari á Ísafirði.

Í haust, 2014,voru haldnir tónleikar í Glerárkirkju ásamt Eldey - kór eldri borgara á Suðurnesjum, en Arnór B. Vilbergsson er stjórnandi Eldeyjar.

Nú um stundir er æft í hverri viku á mánudögum og fimmtudögum kl. 16:30-18:30 í Víðilundi 22. Sungið hefur verið á sömu stöðum innanbæjar og í fyrra en auk þess voru sungin jólalög íLaugarborg sunnudaginn 7. desember,  ásamt með kór Svalbarðskirkju og kór Laufáss- og Grenivíkursókna.

Nú er unnið að því að skipuleggja vorönnina og er þegar búið að ákveða árshátíð laugardaginn 28. febrúar 2014 og vortónleika í Akureyrarkirkju fimmtudaginn 26. mars kl. 20.00. Einnig verður sungið við messu á sama stað á uppstigningardag, 14. maí 2015, kl.14.

Æfingí VíðilundiÆfing í Víðilundi.

Kórinn Í fínu formi söng í Ísafjarðarkirkju undir stjórn Petru Bjarkar Pálsdóttur í maí´14.

Úr ferðalagi kórsins til Ísafjarðar í maí´14: Númi Adolfsson fékk að prófa eina harmonikkuna úr safni Ásgeirs S. Sigurðssonar, nú í Byggðasafni Vestfjarða. Safnið telur 130 harmonikkur og elsta hljóðfærið er frá 1830.

Í fínu formi í Akureyrarkirkju, apríl 2014.