Félagsstarfið

Afþreying hér á Akureyri fyrir alla aldurshópa er með því sem best gerist á landinu. Fyrirtæki smá og stór, frjáls félagasamtök og ýmsir aðilar ásamt Akureyrarbæ veita bæjarbúum tækifæri til þess að njóta fjölbreyttrar afþreyingar þar sem flestir geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Kjörorð bæjarins, Öll lífsins gæði, er í takt við þau tækifæri sem sannarlega eru í boði.

Félag eldri borgara og Akureyrarbær sinna með markvissum hætti tómstundastarfi og fjölbreyttri afþreyingu fyrir fólk frá 60 ára aldri.

Akureyrarbær rekur þjónustu- og félagsmiðstöð fyrir fólk frá 60 ára aldri í Víðilundi 22, en Félag eldri borgara rekur félagsmiðstöð að Bugðusíðu 1 með stuðningi frá bænum. Starfsemin er í sífelldri þróun og hefur það markmið að skapa fjölbreytni og mæta þörfum þeirra sem þangað sækja.

Félagsmiðstöðvarnar eru opnar alla virka daga frá kl. 09:00 til 16:00 - aðgangur er ókeypis.

Í félagsmiðstöðvunum er boðið uppá námskeið af ýmsu tagi og fjölbreytt handverk, hreyfingu og ýmsa aðra afþreyingu og uppákomur.

Í félagsmiðstöðvunum starfar notendaráð sem í sitja sjö fulltrúar. Kosið er í ráðið á hverju vori. Fimm fulltrúar eru úr virkum hópi þeirra sem sækja staðina og tveir tilnefndir af stjórn Félags eldri borgara. Hlutverk notendaráðs er að vera talsmenn fólksins sem nýtir þjónustuna, taka við ábendingum og tillögum um starfsemina. Þá hefur ráðið veg og vanda að ýmsum uppákomum í samvinnu við forstöðumann og starfsfólk félagsmiðstöðvanna.

Fréttabréf um starfsemi félagsmiðstöðvanna og stundatöflur eru á heimasíðunni (sjá hnappa).  

Meginmarkmið með starfi Félags eldri borgara á Akureyri er að bjóða félagsmönnum upp á ýmsa tómstundaiðju og afþreyingu. Má þar nefna fræðslufundi, námskeið, ýmsar kynningar, skemmtikvöld (kráarkvöld), bingó, félagsvist, bridge og margt fleira. Yfir sumarið hefur félagið staðið fyrir gönguferðum m.a. í Kjarnaskógi. Þá býðst félagsmönnum kostur á að fara í styttri og lengri hópferðir innanlands og utan. Undanfarin ár hafa félagsmenn farið erlendis í ákveðnar ferðir í beinu flugi frá Akureyri. Jólahlaðborð, árshátíð og vorhátíð eru fastir liðir. Félagið hefur í samstarfi við aðra aðila staðið fyrir ráðstefnuhaldi fyrir eldri borgara á Akureyri. Kór eldri borgara Í fínu formi, heldur tónleika innan héraðs og fer í tónleikaferðir bæði innan lands og utan. Samkvæmt nýju samkomulagi milli Akureyrarbæjar og Félags eldri borgara á Akureyri sem undirritað var 31. maí 2016 hefur félagið afnot af hluta húsnæðis bæjarins á jarðhæð Bugðusíðu 1 sér að kostnaðarlausu.
Skrifstofa félagsins er í Bugðusíðu 1 og í félagsmiðstöðinni þar fer fram fjölbreytt félags- og tómstundastarf á vegum félagsins í samstarfi við starfsfólk félagsmiðstöðvanna. Starfsemi félagsmiðstöðvanna beggja heyrir undir samfélags- og mannréttindaráð bæjarins. 
Félagið á fulltrúa í Öldrunarráði Akureyrarbæjar, en það á að vera ráðgefandi fyrir bæjarstjórn um þau mál er varða hag eldri borgara í bæjarfélaginu.

Félag eldri borgara á Akureyri mun áfram stuðla að eflingu og þróun á starfi félagsins í samvinnu við félagsmenn og starfsmenn Akureyrarbæjar.