Ágrip af sögu 1982-2013

Stofnfundur Félags eldri borgara á Akureyri var haldinn í Sjálfstæðishúsinu (endurbættu) 3. október 1982. Félagið hét á stofnfundi - Félag aldraðra á Akureyri en nafninu seinna breytt. Sagan segir að á stofnfundi hafi verið á fimmtahundrað manns og þetta var mjög virðuleg samkoma  Þarna var forseti vor Vigdís Finnbogadóttir og biskupinn Pétur Sigurgeirsson (Akureyringum að góðu kunnur), þá var á stofndegi forseti bæjarstjórnar Valgerður Bjarnadóttir og færði hún félaginu peningaupphæð frá Akureyrarbæ að gjöf - startpening eins og nefnt er í bókum. Jón G. Sólnes, fyrrum bankastjóri, setti samkomuna og stýrði henni. Þarna var kynnt upphaf og aðdragandi félagsstofnunarinnar, fyrstu lög samþykkt og fyrsta stjórn ákveðin. Fyrsti formaður var kosinn Jón Sólnes.

Þó félag okkar sé ekki eldra en almanakið segir til um er ellin ekki ný af nálinni og umræða um hana. Fyrir meira en tvöþúsund árum ritaði ítalski heimspekingurinn Marcús Túllíus Cíceró um ellina og þar stendur eftirfarandi: „Gömlum mönnum helst vel á gáfum sínum, svo fremi þeir haldi við ástundun sinni og áhuga“ og einnig: „Neytum kraftanna meðan þeirra nýtur við en hörmum þá ekki þegar þeir þverra“. Og enn segir: „Sú elli er ein virðingarverð sem heldur á hlut sínum, stendur á rétti sínum, lýtur ekki yfirráðum annarra, en varðveitir húsbóndavald sitt til hinsta dags“.

Þegar við höfum hlýtt á þennan texta skráðan nokkru fyrir kristburð þá sjáum við hvað fátt hefur þrátt fyrir allt breyst. Þarna var nánast settur á blað lunginn af tilgangi félags okkar sem nú er þrjátíu ára.

Tilgangur félagsins var eins og fram gengur af fyrstu lögum þess sá: að standa vörð um hag félaganna, eldri borgara í landinu og huga að húsakosti sem hentaði gömlu fólki. Félagslegur þáttur var, þó merkilegt megi kalla, ekki hluti af tilgangi félagsins í fyrstu lögum þess. Þrátt fyrir það varð sá þáttur þó nokkuð ráðandi snemma því mjög á fyrstu dögum félagsins var ákveðið að hafa það sem þá var kallað opið hús. Þar gátu félagsmenn komið saman og spjallað og spilað - oftast var boðið upp á skemmtiatriði og svo var kannski dansað. Opið hús var á dagskrá lengi á vegum félagsins.

Stuttu eftir að félagið var stofnað ákváðu verkalýðsfélögin hér í bæ að gefa félaginu hús sitt Alþýðuhúsið við Lundargötu. Varð sá staður svo heimili félagsins í 23 ár. En 2005 var gerður samningur við Akureyrarbæ um að félagið fengi aðstöðu í nýinnréttuðu húsnæði við Bugðusíðu 1- hluta af neðstu hæð í húsi Sjálfsbjargar. Síðan þá hefur félagið verið þar til húsa. Húsið við Lundargötu var selt.

Til að fylgja eftir hugmyndum frumherjanna var nokkuð hugað að því á fyrstu árum félagsins að bæta kjör þeirra eldri. Félagið okkar var eitt af fyrstu félögum gamla fólksins hér á landi en á allra næstu árum urðu til félög í fleiri byggðum og því sýndist mönnum fljótt að betra væri að berjast fyrir kjörum okkar sameinaðir. Hugmynd um landssamtök varð því til og upphaf þeirra hér á Akureyri. Þau fluttust þó fljótt til Reykjavíkur og baráttan er síðan í höndum landssamtakanna.

Annað baráttumál og skráð sem tilgangur félagsins var að koma upp húsnæði sem ætlað væri fyrst og fremst öldruðum. Beitti félagið sér fyrir byggingu bæði húsanna við Víðilund og Lindarsíðu. Átti félagið fulltrúa í bygginganefndum en annars voru það fulltrúar bæjarins sem stóðu að þessum byggingum. Fyrsta skóflustunga húsanna við Víðilund var tekin af Erlingi Davíðssyni þáverandi formanni félagsins 3. okt. 1987 á fimm ára afmæli félagsins. Félagið eignaðist aldrei neinar íbúðir í þessum húsum en þau hafa verið og eru athvarf og heimili margra eldri borgara og margra félagsmanna okkar. Ekkert framhald hefur síðar orðið á aðkomu félagsins að byggingum fyrir aldraða.

Á fyrstu árum félagsins er strax farið að fara í ferðalög. Farin er ferð strax árið 1983 og ár þar á eftir er farið vestur í Dali og austur á land og í fundargerðarbók er eftirfarandi skráð: 25 manna hópur til Dalasýslu og 50 manna hópur fór austur á Hérað, 5 daga ferðir og var veður hagstætt og ferðirnar án slysa. Frá stofnun félagsins er búið að fara í margar ferðir um landið þvert og endilangt og hafa þær verið til gagns og gamans fyrir félagsmenn og slys og óhöpp verið mjög fátíð sem ekki er gefið mál í ferðum með eldra fólk.

Á fyrstu árunum voru oft stórar samkomur. Almennir fundir oft haldnir að hausti og gjarna fjölmennir. Þar var greint frá starfinu framundan, skemmtiatriði höfð um hönd og oft dansað. Þorrablót voru haldin í fyrstu en seinna kölluð árshátíðir og þorramaturinn hvarf af borðum. Aðalfundir voru lengi með skemmtiatriðum áður en gengið var til aðalfundastarfa nokkuð sem fallið hefur niður allmarga síðustu fundi. Á fyrstu árum var vorfagnaður sem að hluta til var almennur fundur um málefni aldraðra og félagsins og svo skemmtiatriði á eftir. Á seinni tíma vorhátíðum á vegum skemmtinefnda hafa málefni félagsins ekki verið til umræðu aðeins skemmtiatriði. Skemmtanir á vegum félagsins hafa annars tekið breytingum í tímans rás og á síðustu dögum hafa kráarkvöld verið vinsæl 

Á allra síðustu árum var skipuð fræðslunefnd sem hefur séð um námskeið t.d. í framsögn og haft forgöngu um erindaflutning; meðal annars sögðu þar nokkrir eldri borgarar frá minningum sínum um æsku og umhverfi hér á Akureyri.

Þá hefur spilamennska verið á vegum félagsins bæði þar sem fólk kemur saman og spilar það sem hugur girnist og hins vegar keppni í brids.

Skráðir félagar nú eru um 1040 og fer fjölgandi.

Tekið saman í lok árs 2013 af Jóhannesi Sigvaldasyni fyrrverandi formanni félagsins.