Kynning á starfsemi EBAK

Kynning á tómstunda- og félagsstarfi eldri borgara

EBAK hélt opinn kynningarfund í félagsmiðstöðinni í Bugðusíðu 23. janúar sl. Að undirbúningi fundarins stóðu fræðslunefnd og stjórn félagsins. Tilgangur fundarins var að kynna félagsmönnum og öðrum eldri borgurum á Akureyri og í nágrenni, það fjölbreytta tómstunda- og félagsstarf, sem EBAK og Akureyrarbær bjóða aldurshópnum 60+ upp á í félagsmiðstöðvunum í Bugðusíðu og Víðilundi.

Fundurinn hófst kl. 16:30 til að gefa þeim sem enn eru í vinnu kost á að sækja viðburð á vegum félagsins. Um 80 manns sóttu fundinn.

Formaður félagsins Haukur Halldórsson setti fundinn.

Frummælendur frá EBAK voru Halldór Gunnarsson, varaformaður, Hallgrímur Gíslason, stjórnarmaður, Birgir Sveinbjörnsson, formaður skemmtinefndar, Hólmfríður Guðmundsdóttir, formaður fræðslunefndar og frá Akureyrarbæ Rósa Matthíasdóttir, leiðbeinandi í félagsmiðstöðvunum.

Í máli frummælenda kom vel fram hve fjölbreytt og metnaðarfullt starf er unnið í báðum félagsmiðstöðvunum. Þróun og  nýbreytni hefur orðið í starfi EBAK í gegn um tíðina. Nýjar nefndir, ráð og klúbbar hafa tekið til starfa, netmiðlar félagsins skapa ný tækifæri varðandi auglýsingar og upplýsingaflæði til félagsmanna svo dæmi séu tekin.

Fundarmenn fengu í hendur upplýsingablað um EBAK  og bækling Akureyrarbæjar og félagsins, sem kom út í byrjun janúar. Bæklingnum  fylgja stundaskrár beggja félagsmiðstöðvanna sem sýna hvað er á dagskrá á virkum dögum á vorönn. Aðrir viðburðir eru auglýstir sérstaklega.

Bæklinginn má finna hér á heimasíðunni, hægra megin. Þar má einnig finna kynningu á starfi félagsins, sem byggð er á kynningunni á fundinum.