Áramótakveðja formanns EBAK

Ágætu félagar og aðrir lesendur þessa pistils.

Með þökkum fyrir árið sem er að líða skrifa ég þennan pistil í þeim tilgangi að líta aðeins til baka, en einkum til að horfa fram á veginn eins og mörgum finnst góður siður um áramót.

Aðalfund fyrir síðasta starfsár var ekki unnt að halda fyrr en í júníbyrjun. Á undanförnum árum hefur starfsemi félagsins í félagsmiðstöðinni í Bugðusíðu verið fremur lítil yfir sumarið en megnið af þessu ári hefur hún þurft að vera í algjöru lágmarki. Göngur á vegum félagsins voru svipaðar í sumar og venjulega, en hætta þurfti þó þriðjudagsgöngunum í Kjarnaskógi fyrr en gott þótti.

Árið hefur reynst mörgum erfitt, einmanaleiki hefur sett mark sitt á fleiri en í venjulegu ári og samskipti á milli fólks hafa verið í algjöru lágmarki. Flestir hafa miðað við að hitta eingöngu sína nánustu. Aukinn fjöldi eldri borgara hefur þó verið í tölvusamskiptum við sitt fólk, í gegnum facebook, facetime og skype svo dæmi séu nefnd. Svo má ekki gleyma símanum, sem hefur verið mikið nýttur til að glata ekki alveg sambandi við ættingja og vini.

Við skulum horfa bjartsýn fram á veginn og treysta því að árið 2021 verði bjartara en það ár sem senn hverfur í aldanna skaut og kemur sem betur fer aldrei til baka. Samt skulum við vera viðbúin því að þurfa að þreyja þorrann og góuna og jafnvel eitthvað fram á sumar. Öll mannleg samskipti ættu að færist smátt og smátt í eðlilegt horf og við skulum treysta á að næsti vetur verði okkur góður í félagslegu tilliti.

Ýmsar breytingar eru í farvatninu hvað varðar okkar aldurshóp, 60 ára og eldri. Nýr forstöðumaður tómstundamála hjá Akureyrarbæ tekur til starfa eftir áramótin og má búast við einhverjum breytingum í kjölfarið, trúlega verða áhrifin mest í starfi félagsmiðstöðvanna. Nokkuð ljóst er að áherslan á heilsueflingu eldri borgara verður aukin, enda er það með því nauðsynlegasta til að við getum verið sem lengst heima og þannig frestað innlögnum á hjúkrunarheimili. Heilsan er undirstaða vellíðunar og þess vegna er nauðsynlegt að hver og einn rækti sína heilsu eins og unnt er. Hreyfing og líkamsæfingar af ýmsum toga eru þarfar fyrir alla án tillits til aldurs eða getu.

Breyting verður á starfsmannahaldi í félagsmiðstöðinni í Bugðusíðu um mánaðamótin febrúar og mars. Þá tekur Akureyrarbær við því aftur og þær frábæru starfsstúlkur sem hafa þjónustað okkur þar síðustu ár láta af störfum. Það verður mikil eftirsjá af þeim, en vonandi tekst vel til við val á arftökum þeirra. Við væntum þess að breytingin hafi ekki mikil áhrif á skrifstofu og aðra starfsemi EBAK í Bugðusíðunni. Núverandi stjórn vill gjarnan auka samstarfið á milli félagsmiðstöðvanna, ekki síst í ljósi þess að sífellt fleiri félagar okkar eru búsettir í Naustahverfi og Hagahverfi og er ansi langt fyrir þá að sækja alla starfsemi á vegum félagsins út í Bugðusíðu.

Leiðakerfi Strætisvagna Akureyrar er í endurskoðun og hefur stjórn EBAK ásamt notendaráði og öldungaráði lagt ríka áherslu á að hægt verði að komast á milli félagsmiðstöðvanna án þess að þurfa að skipta um vagn á leiðinni. Við höfum líka vakið athygli á að margir íbúar í Víðilundi og í Lindasíðu eiga erfitt með að nýta sér þjónustu strætisvagna og þarf að koma til móts við þá á einhvern máta. Hvort og þá hvenær og hvernig verður leyst úr þessum málum verður að koma í ljós.

Að lokum vil ég óska ykkur öllum gleðilegs nýs árs, með von um að það verði fullt af yndisstundum, þar sem við getum notið gefandi tómstundastarfs og átt eðlileg samskipti við vini og vandamenn. Vonandi geta sem flest okkar verið virk í þeirri starfsemi sem hægt verður að bjóða upp á í félagsmiðstöðvunum og utan þeirra.

Lifið heil.

Hallgrímur Gíslason, fomaður EBAK.