Ályktanir.

1. Ályktun aðalfundar EBAK 2018

Aðalfundur Félags eldri borgara á Akureyri haldinn 26. mars 2018 samþykkir að fela stjórn félagsins að hefja viðræður við Akureyrarbæ um mögulegar breytingar og/eða stækkun á húsnæði félagsmiðstöðvarinnar í Bugðusíðu 1.

 Markmiðið er að húsnæði félagsmiðstöðvarinnar  þjóni sem best því félags- og tómstundastarfi sem þar fer fram á vegum EBAK og Akureyrarbæjar. Aldurshópurinn 60 ára og eldri stækkar ört í sveitarfélaginu, en fjöldi félagsmanna í EBAK er nú  um 1.400 manns og fjölgar stöðugt.

Salurinn í Bugðusíðu 1 nægir ekki fyrir ýmsa viðburði sem þar fara fram á vegum félagsins. Þá er þröngt um ýmsa aðra starfsemi s.s. handmennt af ýmsu tagi og aðra tómstundaiðju og félagsstarf.  Úr þessu þarf að bæta með breytingum og/eða stækkun húsnæðisins í Bugðusíðu 1. Þátttaka félagsins í kostnaði við framkvæmdir í Bugðusíðu 1 verði háðar samþykki félagsfundar EBAK.

Stjórn EBAK

 

2.   Ályktun aðalfundar EBAK 2018

Aðalfundur Félags eldri borgara á Akureyri haldinn 26. mars 2018 fagnar stofnun öldungaráðs Akureyrarkaupstaðar frá 9. júlí 2015. Í samþykktum fyrir öldungaráðið eru skýr fyrirmæli um hlutverk þess. Í 2. gr. segir m.a. að öldungaráðið skuli vera bæjarstjórn, nefndum  og ráðum Akureyrarkaupstaðar til ráðgjafar um málefni og hagsmuni bæjarbúa sem eru 60 ára og eldri.

Aðalfundurinn hvetur bæjaryfirvöld til þess að efla starfsemi öldungaráðsins með það að markmiði að ráðið verði öflugur samráðs aðili um málefni aldurshópsins 60 ára og eldri í bæjarfélaginu.

Stjórn EBAK